Enski boltinn

Liverpool og United unnu - Ótrúleg endurkoma City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney fagnar í dag.
Wayne Rooney fagnar í dag. Nordic Photos / Getty Images
Liverpool, Manchester United og Manchester City unnu öll sigra í leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni í dag. Swansea, West Ham og Fulham eru einnig á sigurbraut.

Táningurinn Raheem Sterling var hetja Liverpool en hann skoraði eina mark liðsins gegn Reading í dag. Markið var hans fyrsta fyrir félagið í ensku úrvalsdeildinni.

Dagurinn byrjaði ekki vel hjá Wayne Rooney sem kom Stoke yfir gegn Manchester United með sjálfsmarki í upphafi leiks. Hann átti þó eftir að bæta fyrir það en hann skoraði tvö í 4-2 sigri United-manna.

Robin van Persie og Danny Welbeck voru einnig á skotskónum fyrir United og Michael Kightly skoraði síðara mark Stoke í leiknum.

Edin Dzeko reyndist hetja Manchester City. Hann kom inn á sem varamaður á 80. mínútu og var staðan þá 1-0 fyrir West Brom en Shane Long hafði komið heimamönnum yfir.

Dzeko skoraði þó tvívegis fyrir City á lokamínútunum, það síðara í uppbótartíma, og tryggði meisturunum dýrmætan 2-1 sigur.

Það sem meira er - City var manni færri lengst af í leiknum þar sem að James Milner fékk að líta rauða spjaldið í fyrri hálfleik fyrir að taka niður Long þegar hann var sloppinn í gegn.

Öll mörkin í leik Swansea og Wigan voru skoruð á fjögurra mínútna kafla. Swansea hafði betur, 2-1, með mörkum Pablo og Michu. Emmeson Boyce skoraði fyrir Wigan.

Chris Baird tryggði Fulham 1-0 sigur á Aston Villa og West Ham vann góðan 4-1 sigur á Southampton í nýliðaslag. Mark Noble skoraði tvö fyrir hamrana - Kevin Nolan og Modibo Maiga hin. Adam Lallana skoraði mark Southampton.

Chelsea er á toppnum með 22 stig en Manchester-liðin koma næst með átján stig hvort. West Brom hefði komist í þriðja sætið með því að ná stigi í dag en er í sjötta sætinu.

Liverpool er í ellefta sætinu með níu stig en þetta var annar sigur liðsins í síðustu þremur deildarleikjum.

Úrslit og markaskorarar hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×