Enski boltinn

Miðverðirnir með mörkin í jafntefli Manchester City og Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester City og Arsenal gerði 1-1 jafntefli í toppslag í ensku úrvalsdeildinni í dag en bæði liðin voru taplaus fyrir leikinn. Leikurinn var rólegur í fyrri hálfleik en fjörið var mun meira á lokakaflanum.

Miðvörðurinn Joleon Lescott kom Manchester City í 1-0 á 40. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá David Silva. Annars var lítið um góð færi í fyrri hálfleiknum en Arsenal var mun meira með boltann.

Það var mun meira fjör í seinni hálfleiknum og sérstaklega þegar tók að líða á hann. Sergio Agüero var duglegur að koma sér í færin en tókst þó ekki að skora. Arsenal var áfram mun meira með boltann en gekk ekki nógu vel að skapa sér færi.

Joe Hart varði frábærlega frá Santi Cazorla á 82. mínútu en Arsenal fékk í framhaldinu horn. Upp úr horninu barst boltinn til Laurent Koscielny eftir misheppnaða hreinsun Lescott og franski miðvörðurinn skoraði með glæsilegu skoti.

Sergio Agüero fékk besta færi leiksins þremur mínútum síðar en skaut framhjá markinu á einhver ótrúlegan hátt.

Gervinho fékk einnig tækifæri til að skora sigurmarkið á fyrstu mínútu í uppbótartíma en skaut yfir úr fínu skotfæri. Mörkin urðu ekki fleiri og liðin sættust á sanngjarnt jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×