Enski boltinn

Brendan Rodgers: Af hverju fékk Jonny Evans þá ekki líka rautt spjald?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonjo Shelvey lét Sir Alex Ferguson heyra það þegar hann labbaði útaf vellinum.
Jonjo Shelvey lét Sir Alex Ferguson heyra það þegar hann labbaði útaf vellinum. Mynd/AP
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, hrósaði sínum mönnum þrátt fyrir 1-2 tap á móti Manchester United á Anfield í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni. Liverpool lék manni færri frá 39. mínútu og komst yfir í byrjun seinni hálfleiks en United jafnaði og skoraði síðan sigurmarkið úr vítaspyrnu níu mínútum fyrir leikslok.

„Þetta var frábær dagur fyrir mína leikmenn og þetta var hetjuleg frammistaða hjá þeim," sagði Brendan Rodgers.

„Liðið spilaði stórkostlega fyrstu 65 mínútur leiksins. Það er allt til alls í liðinu til að halda áfram í rétta átt en við þurfum bara að fara breyta góðri spilamennsku í stig. Ég er sannfærður um að við gerum það. Við fáum smá heppni með okkur og þá komumst við á skrið," sagði Rodgers.

Liverpool lék manni færri frá 39. mínútu þegar Jonjo Shelvey fékk beint rautt spjald fyrir brot á Jonny Evans en þeir fóru þá báðir af krafti í tæklingu.

„Það voru mjög mikil vonbrigði. Ef Jonjo Shelvey átti að fá rautt spjald þá átti Jonny Evans líka að fá rautt. Ég er afar svekktur að dómarinn sá bara þetta atvik frá einu sjónarhorni," sagði Rodgers.

„Við vorum áfram betra liðið eftir að við urðum manni færri en við þurftum meiri hjálp og við fengum ekki neitt frá dómaranum. Luis Suarez átti að fá víti og það var fullt af atriðum sem féllu ekki með okkur," sagði Rodgers.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×