Innlent

Hönnunarsamkeppni um útilaug við Sundhöllina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sundhöllin í Reykjavík.
Sundhöllin í Reykjavík.
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu um hönnunarsamkeppni um útfærslu útilaugar við Sundhöll Reykjavíkur. Hugmyndir um útilaug hafa um nokkurt skeið verið til skoðunar hjá Reykjavíkurborg og mun samkeppnin taka mið af þeirri vinnu.

Starfshópur um endurbætur og hugsanlega stækkun Sundhallarinnar lagði í skýrslu sinni til borgarráðs í maí síðastliðnum áherslu á að byggingarlist hússins bæði að innan sem utan yrði gert hátt undir höfði þegar ráðist verður í endurbætur eða viðbyggingu. „Sérstaða og saga byggingarinnar er mikil og það gerir hana að auki eftirsóknarverða fyrir sundlaugargesti", segir í skýrslunni.

Starfshópurinn leggur áherslu á að nota áfram sturtur og búningsklefa en betrumbæta aðgengi að þeim á neðri hæð í tengslum við viðbyggingu, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar væri jafnframt mögulegt að koma fyrir nútímalegri aðstöðu en nú rúmast í gömlu Sundhöllinni. Með því að tengja nýju og gömlu aðstöðuna gætu gestir valið á milli ólíkra kosta.

Borgarráð fól Skipulags- og byggingarsviði og Framkvæmda- og eignasviði að hafa forystu um hönnunarsamkeppnina í samvinnu við ÍTR og Arkitektafélag Íslands.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×