Innlent

Framleiðandi Oblivion ánægður með tökurnar

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Duncan Henderson
Duncan Henderson
Duncan Henderson hefur framleitt kvikmyndir á borð við Harry Potter og Dead Poets Society. Nýjasta verkefni hans er myndin Oblivion með Tom Cruise en eins og flestir vita var hún m.a. tekin upp á Íslandi. Hann segir tökurnar hafa gengið vel.

„Þetta var frábært. Við undirbjuggum okkur vel og við gátum framkvæmt hlutina samkvæmt áætlun. Við vorum heppin með veðrið og stundum var það einstaklega gott," segir Duncan.

Eftir að hafa farið víða í leit að hentugum tökustað hafi verið ákveðið að koma til Íslands.

„Þetta er rétt útlitið svo við reynum ekki að breyta því. Þetta á að vera í Norður-Ameríku eftir hörmulegt umrót, eins og flóð, eldgos og jarðskjálfta. Þá liti landið svona út."

Landið hafi þannig hentað vel fyrir söguþráð myndarinnar.

„En hvað söguþráðinn varðar, þá held ég að þetta hafi fyllt leikarana andagift. Í fyrsta skipti núna vorum við í raunverulegu umhverfi eins og því er lýst í handritinu."

Hann segist því vel geta komið aftur til Íslands.

„Þegar maður hefur fengið góða reynslu... Maður hugsar með sér að núna skilji maður hvernig á að gera þetta. Ég veit hvað ég myndi gera í annað skipti. Reyndar yrði það ekki mjög frábrugðið því sem við gerðum núna. Nú hefur þetta sannað sig, maður hefur gert það. Maður hefur skipulagt þetta og framkvæmt það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×