Innlent

Meiri líkur á að vinna í lottói en að finna ísbjörninn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar sveimar yfir svæðinu.
Þyrla Landhelgisgæslunnar sveimar yfir svæðinu.
Kjartan Sveinsson, sem gerir út selskoðunarbátinn Brimil á Hvammstanga, segir að hverfandi líkur séu á því að ísbjörninn sem menn urðu varir við fyrir norðan í gær sé hér ennþá. Kjartan var á leið í selskoðun með sextán ferðamenn þegar Vísir sló á þráðinn til hans í dag.

„Ég held að það séu meiri líkur á því að við vinnum í lottóinu heldur en að við sjáum ísbjörn í dag," segir Kjartan. Hann telur að langmestar líkur séu á því að ísbjörninn hafi haldið aftur heim á leið.

„Hann syndir um sex mílur á klukkutíma þannig að ég hef nú trú á því að hann hafi nú bara vippað sér þarna upp og sé nú farinn aftur út á sjó," segir Kjartan, sem telur að eðlilegast væri að leita að birninum við vestanvert landið. „Þetta er ísbjörn sem kemur frá Grænlandi og ég held að hann sé bara á leið aftur," segir hann.

Kjartan telur að það sé vel gerlegt fyrir björninn að synda til baka, því hann hafi sennilegast getað nært sig við Ísland. „Það er mjög létt fyrir hann að fá sér í gogginn núna því að urtan er búin að venja kópana undan sér og það er örugglega ekkert mál fyrir hann að ná sér í einn kóp eða jafnvel tvo," segir hann. Kópur sé fimmtán kíló og það sé ágætis magafylli fyrir björninn.

„Fyrst að þeir fundu hann ekki í gær þá held ég að hann sé bara farinn aftur," segir Kjartan að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×