Innlent

Mikil stemning á Goslokahátíð

Fjölmenni er nú í Vestmannaeyjum en hin árlega Goslokahátíð stendur nú sem hæst. Hátíðin var formlega sett í gær en hún hefur að sögn skipuleggjenda gengið vonum framar.

„Þetta hefur gengið alveg frábærlega," segir Birgir Nielsen, einn af skipuleggjendum Goslokahátíðarinnar. „Það ríkir hálfgerð Þjóðhátíðarstemning í bænum."

Erfitt hefur reynst að henda reiður á fjölda hátíðargesta. Vestamannaeyjarbær kostar hátíðina og því er ekki hægt að áætla fjöldann út frá seldum miðum.

Herjólfur hefur flutt fólkið frá Landeyjarhöfn og hefur hann í nær öllum tilvikum verið „kjaftfullur" eins og lögreglumaður í Vestmannaeyjum komst að orði.

„Það er mikið um að brottfluttir eyjamenn snúi aftur á Goslokunum. Við hvetjum auðvitað alla til að mæta og kynna sér sögu Vestmannaeyja og gossins í Heimaey."

Birgir segir að hátíðarhöldin nái hápunkti sínum í kvöld. „Aðalkvöldið er í kvöld. Þá verður farið í Skvísusund og allir munu skemmta sér vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×