Innlent

Lilja hrærð yfir viðbrögðunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Samstaða fer af stað með krafti.
Samstaða fer af stað með krafti. mynd/ vilhelm.
Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu, nýs stjórnmálaafls sem hyggst bjóða fram í þingkosningum að ári, segir niðurstöður í nýrri skoðanakönnun koma sér og flokksfélögum sínum á óvart. Flokkurinn mældist með 21,3% fylgi í könnun sem Fréttablaðið birtir í dag og var framkvæmd i gær og í fyrradag. Samkvæmt niðurstöðunum fengi flokkurinn fjórtán þingmenn kjörna.

„Vð vorum svona í bjartsýni okkar að vonast til að þetta yrði svona 12 til 15%. Við erum svona hálf hrærð yfir þessu mikla fylgi," segir Lilja. Hún bendir á að forysta Samstöðu hafi ekki enn farð út á land til að kynna framboðið þar. Við höfum meðal annars ekki komist vegna veðurs. við ætluðum að fara í þessari viku," segir Lilja. Hún tekur þó fram að þetta séu nú ekki endilega þær tölur sem muni koma upp úr kjörkössunum. „En ég held að það sé meiri líkur á því að það muni gerast núna en oft áður," segir Lilja.

Lilja segir erfitt að geta sér til um það hvað skýri niðurstöðuna í kosningunni. Hún hafi þó skynjað að fólk væri að leita að stjórnmálaafli sem hefði trúverðugleika og ekki síður að leita að fólki sem hefði trúverðugleika til að framfylgja þeirri stjórnmálastefnu sem Samstaða byggir á. Það væri því bæði fólkið og stefnan sem skipti máli. „Ég er eini þingmaðurinn í hópnum og síðan er fólk sem hefur ekki beint verið í framvarðarlínu stjórnmálanna með mér heldur þekkt af öðrum störfum í samfélaginu. Ég held að mörgum hafi þótt það vera traustvekjandi," segir Lilja. Hún bendir á að ásýnd flokksins eigi eftir að breytast eftir því sem félögunum fjölgi.

Lilja segir að Samstaða hafi verið í sambandi við fólk víðsvegar á landinu til að taka þátt í starfi flokksins. „Við höfum haft samband við fólk í öllum kjördæmum en auðvitað mætti hópurinn vera stærri á hverjum stað. Það litast kannski af tímaskorti og peningaleysi," segir Lilja og bendir á að ný framboð eins og Samstaða hafi nánast ekki úr neinum peningum að moða miðað við framboð sem þegar hafi haslað sér völl.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×