Enski boltinn

Mancini gagnrýnir Liverpool fyrir viðbrögð sín í Suárez-málinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini.
Roberto Mancini. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, varð fyrsti stjórinn til að gagnrýna framgöngu Liverpool í Suárez-málinu og hversu lengi það tók mann sem var dæmdur sekur um kynþáttaníð að biðjast afsökunnar.

Manchester City mætir Liverpool í kvöld í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildarbikarsins og Liverpool er áfram án Luis Suárez sem tekur þessar vikurnar út átta leikja bann fyrir kynþáttaníð gagnvart Patrice Evra í leik Manchester United og Liverpool.

„Svona aðstæður geta komið upp á vellinum en það er mikilvægt að biðjast afsökunnar strax. Þú gerir stundum hluti sem þú sérð eftir á vellinum af því að þú ert stressaður og ert ekki að hugsa. Allt getur gerst þegar þú hugsar ekki hlutina til enda af því að þú ert þreyttur, heimskur eða ungur. Það getur margt komið til," sagði Roberto Mancini.

„Ég tel ekki að Suárez sé kynþáttahatari. En ég er á því að hann gerði mistök og allir geta gert mistök. Það er hinsvegar mikilvægt að viðurkenna mistök sín og biðja alla hluteigandi strax afsökunnar," sagði Mancini sem var einnig á því að Liverpool hafi gert mistök með framgöngu sinni í málinu ekki síst þegar allt liðið kom út í Suárez-bolum skömmu eftir að Úrúgvæmaðurinn var dæmdur í átta leikja bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×