Erlent

Mikill viðbúnaður við dómshúsið í Moskvu

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Pussy Riot í dómsal í dag
Pussy Riot í dómsal í dag mynd/afp

Tveggja ára fangelsisvist bíður nú þremenninganna í pönkhljómsveitinni Pussy Riot. Þær voru fundar sekar um að hafa raskað almannafriði í Moskvu í dag en dómsúrskurðinum hefur víða verið mótmælt.

Konurnar þrjár í rússnesku pönkhljómsveitinni Pussy Riot voru dæmdar til tveggja ára fangelsisvistar í dag. Þær voru fundar sekar um óeirðir og guðlast. Konurnar stóðu fyrir pönkbæn í dómirkju í Moskvu í febrúar. Þar sungu þær mótmælasöngva og beindust þeir að rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og stuðningi hennar við framboð Vladimírs Pútin til forseta Rússlands. Konurnar hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan þá.

Í dómkirkjunni biðluðu konurnar til Maríu meyjar um að bjarga Rússlandi frá Pútín en hann var kjörinn til embættis forseta tveimur vikum eftir að konurnar voru handteknar. Konurnar hafa beðist afsökunar á að hafa móðgað einhvern með gjörningnum. Dómarinn taldi afsökunarbeiðnina vera óeinlæga.

Ljóst var að konurnar hefðu verið sakfelldar rétt fyrir hádegi í dag. Dómsuppkvaðning stóð yfir í nokkrar klukkustundir áður en dómari kom loks að refsingunni.

„Tolokonnikova, Samutsvich og Alekchina frömdu óspektir, brutu með öðrum orðum gróflega gegn allsherjarreglu, með augljósu virðingarleysi fyrir samfélaginu, drifið áfram af hatri á trúarbrögðum og fjandskap í þeirra garð með það í huga að sýna hatur gagnvart þjóðfélagshópi. Þetta var gert af ráðnum hug," sagði dómarinn Marina Syrova í dag.

Mikill viðbúnaður var við dómshúsið í Moskvu. Fjöldi stuðningsmanna þremenninganna mótmæli þar meðferð rússneskra yfirvalda á konunum. Þá var rússneski skákmeistarinn og stjórnmálamaðurinn Garrí Kasparov handtekinn fyrir dómshúsið í dag.

Sakfellingu kvennanna hefur verið mótmælt víða um heim í dag en hundruð stuðningsmanna Pussy Riot komu saman í París, Brussel og Tel Aviv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×