Enski boltinn

Lygilegur 7-5 sigur hjá Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arsenal vann í kvöld sigur á Reading, 7-5, í einhverjum eftirminnilegasta leik síðari ára í enskri knattspyrnu. Reading komst í 4-0 forystu í leiknum en með sigrinum er Arsenal komið áfram í fjórðungsúrslit ensku deildabikarkeppninnar.

Framlengja þurfti leikinn eftir að staðan var 4-4 að loknum venjulegum leiktíma. Arsenal komst yfir í framlengingunni með marki Marouane Chamakh en Pavel Pogrebnyak jafnaði metin fyrir Reading.

Lokamínútur framlengingarinnar toppuðu svo allt. Theo Walcott kom Arsenal yfir, 6-5, á 130. mínútu og Chamakh skoraði svo sjöunda markið á 133. mínútu. Þá loksins var hægt að flauta leikinn af.

Ballið byrjaði á 12. mínútu er Jason Roberts kom Reading yfir. Svo komu mörkin á færibandi - sjálfsmark Laurent Koscielny og mörk þeirra Mikele Leigertwood og Noel Hunt komu Reading í 4-0 forystu eftir aðeins 37 mínútur. Mátti þá sjá nokkra stuðningsmenn Arsenal yfirgefa áhorfendastúkuna enda útlitið ansi dökkt hjá gestunum.

Theo Walcott náði að klóra í bakkann fyrir Arsenal í uppbótartíma fyrri hálfleiks en leikurinn breyttist mikið þegar að þeir Olivier Grioud og Thomas Eisfeld komu inn á sem varamenn á 62. mínútu. Arsenal tók öll völd á vellinum og Giroud minnkaði muninn í tvö mörk aðeins tveimur mínútum síðar.

Laurent Koscielny skoraði þriðja mark Arsenal á 89. mínútu og Theo Walcott tryggði svo Arsenal framlenginguna þegar vel var liðið á uppbótartíma síðari hálfleiksins.

Endurkoma Arsenal var ótrúleg sem og leikurinn allur. Það er rétt að árétta að Walcott skoraði þrennu í leiknum og Chamakh tvö mörk en sá síðarnefndi hefur lítið sem ekkert fengið að spila með Arsenal í upphafi tímabilsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×