Enski boltinn

Leeds og Boro áfram - Madonna kom ekki til Di Canio í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Christian Benteke skoraði tvö mörk fyrir Aston Villa í kvöld.
Christian Benteke skoraði tvö mörk fyrir Aston Villa í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Þremur leikjum er lokið í enska deildabikarnum. Leeds, Middlesbrough og Aston Villa komust öll áfram í fjórðungsúrslit keppninnar eftir sigra í sínum leikjum.

Middlesbrough, sem leikur í B-deildinni, hafði betur gegn grönnum sínum í úrvalsdeildarliði Sunderland með 1-0 sigri. Scott McDonald skoraði eina markið í fyrri hálfleik en leikurinn fór fram á Leikvangi ljóssins í Sunderland.

Boro hefur verið á miklu skriði að undanförnu en þetta var fimmti sigur liðsins í röð. Sigurinn er einnig sá fyrsti sem Boro vinnur í síðustu sex leikjum sínum gegn Sunderland.

Aston Villa hafði betur gegn C-deildarliðinu Swindon Town, 3-2, í spennandi leik. Christian Benteke skoraði sigurmark Aston Villa á lokamínútu venjulegs leiktíma.

Villa komst í 2-0 forystu í leiknum með mörkum þeirra Benteke og Gabrial Agbonlahor. Miles Storey jafnaði svo metin fyrri Swindon með tveimur mörkum seint í leiknum en það dugði á endanum ekki til.

Stjóri Swindon er hinn skrautlegi Paolo Di Canio sem sagði fyrir leik að sigur í kvöld myndi örugglega jafnast á við kvöldstund með Madonnu í rúminu.

Þá vann Leeds öruggan 3-0 sigur á Southampton. Michael Tonge, El Hadji Diouf og Luciano Becchio skoruðu mörk Leeds í leiknum en þeir hvítklæddu höfðu mikla yfirburði á Elland Road í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×