Enski boltinn

Fowler vill sjá Evra og Suarez með blóm á sunnudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra og Luis Suarez.
Patrice Evra og Luis Suarez. Mynd/AFP
Robbie Fowler, fyrrum framherji Liverpool, var í viðtali við BBC Sport þar sem hann talaði um að Patrice Evra og Luis Suarez ættu að vera í stórum hlutverkum um helgina þegar menn minnast þeirra sem dóu í Hillsborough-slysinu.

Erkifjendurnir Liverpool og Manchester United mætast á Anfield mætast á sunnudaginn í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni og fer leikurinn fram í hádeginu.

Deila Patrice Evra og Luis Suarez í fyrra kostaði Suarez átta leikja bann en hann var dæmdur fyrir kynþáttaníð gagnvart Evra. Suarez henti síðan olíu á eldinn með því að neita að taka í hönd Evra fyrir seinni leik Liverpool og Manchester United.

„Það væri viðeigandi ef Luis Suarez myndi minnast München-slyssins með því að leggja blómsveig fyrir framan stuðningsmenn Manchester United og Patrice Evra myndi minnast Hillsborough-slysins með því að leggja blómsveig fyrir frama Kop-stúkuna," sagði Robbie Fowler.

Átta leikmenn Manchester United og þrír starfsmenn félagsins fórust í München-slysinu 1958 en 96 stuðningsmenn Liverpool létust í Hillsborough-harmleiknum 1989.

„Það er mikill metingur á milli þessara félaga en sumt er miklu mikilvægara en fótbolti og þetta er eitt af því. Bæði félögin bera líka virðingu fyrir sögu hvors annars og hvað þau hafa afrekað í gegnum tíðina," sagði Fowler.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×