Enski boltinn

Holloway: Enska úrvalsdeildin vill losna við okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ian Holloway, stjóri Blackpool.
Ian Holloway, stjóri Blackpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ian Holloway, stjóri Blackpool, segir að forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar myndi fagna því ef að Blackpool-liðið falli úr deildinni þegar lokaumferðin fer fram á sunnudaginn kemur. Blackpool bíður mjög erfitt verkefni að reyna ná stigi af Englandsmeisturum Manchester United á Old Trafford.

„Þeir verða fegnir að losa við okkur og vonast örugglega til að við töpum leiknum og föllum. Þá væri ég ekki lengur að agnúast út í þá. Ég er mjög pirraður," sagði Ian Holloway en hann segir engar líkur á því að United slaki eitthvað á í þessum leik.

„Sir Alex Ferguson er sigurvegari. Það kæmi aldrei til greina hjá honum að reyna ekki að vinna leik. Hann á hinsvegar það skilið að velja það lið sem hann vill tefla fram," sagði Holloway sem var ekki að fela pirring sinn út í forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar.

„Þeir halda að eina leiðin til að við vinnum Manchester United sé ef að þeir tefli fram einhverju varaliði. Það er algjört rugl en því miður þar sem við erum að glíma við," sagði Holloway.

„Þeir eru að segja að við getum ekki unnið þá en sem betur fer fer ég ekki með þannig hugarfar í vinnuna því ef svo væri hefðum við aldrei komist upp í úrvalsdeildina," sagði Holloway.

Blackpool var í áttunda sæti um áramótin en hefur aðeins náð í 14 stig af 60 mögulegum í 20 deildarleikjum sínum á árinu 2011. Liðið er nú með 39 stig eða jafnmörg stig og Birmingham City en Blackpool liðið situr á fallsætinu útaf lakari markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×