Enski boltinn

Þúsund auka lögreglumenn á leik Rangers og Celtic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyle Laferty hjá Rangers í baráttu við Thomas Rogna hjá Celtic.
Kyle Laferty hjá Rangers í baráttu við Thomas Rogna hjá Celtic. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lögreglan í Glasgow hefur miklar áhyggjur af óeirðum í kringum nágrannaslag Rangers og Celtic í skosku úrvalsdeildinni sem fer fram á Ibrox á sunnudaginn. Rangers tekur þá á móti Celtic sem er einu stigi á eftir þeim í töflunni og eiga auk þess leik inni.

Með sigri færu leikmenn Celtic langleiðina með að tryggja sér skoska meistaraititlinn í fyrsta sinn í þrjú ár en Rangers hefur orðið skoskur meistari undanfarin tvö tímabil.

Neil Lennon, stjóri Celtic, hefur verið í sviðsljósinu í aðdraganda leiksins eftir að hann fékk senda til sína bréfasprengju og það er margt sem bendir til þess að þetta gæti orðið erfiður dagur fyrir skosku lögregluna.

Þegar liðin mættust í bikarleik á dögunum, fengu þrír leikmenn rautt spjald og Lennon lenti saman við aðstoðarstjóra Rangers, Ally McCoist, á hliðarlínunni.

Lögreglustjórinn Stephen House hefur áhyggjur að því að áfengisneysla, heitt veður og frídagur daginn séu blanda sem boðar aðeins vandræði milli harðra stuðningsmanna félaganna ekki síst þar sem að svo mikið er undir í þessum leik.

House ætlar því að mæta með þúsund fleiri lögreglumenn á leikinn heldur en vaninn er á leikjum sem þessum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×