Innlent

Útskrifaður úr Juilliard og flytur brátt til Hollywood

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorvaldur Davíð Kristjánsson er nýútskrifaður úr Juilliard.
Þorvaldur Davíð Kristjánsson er nýútskrifaður úr Juilliard.
Þorvaldur Davíð Kristjánsson útskrifaðist úr Juilliard listaháskólanum í New York á föstudag. Hann er fyrsti Íslendingurinn til að úrskrifast af leiklistarbraut skólans. Hann er við tökur á kvikmyndinni Svartur á leik þessa dagana, en mun á næstunni flytja til Hollywood.

Þorvaldur Davíð var nýlega kominn úr tökum þegar Vísir náði sambandi við hann í kvöld. Hann segir að mikill hraði sé í myndinni „Þetta eru langir dagar og þrælskemmtilegt," segir Þorvaldur Davíð í samtali við Vísi. Þorvaldur Davíð segir stefnt sé að því að klára tökur á miðvikudag í næstu viku. Þá hafi þær staðið yfir í um mánuð.

Þorvaldur Davíð skrapp út til New York í síðustu viku til að vera viðstaddur útskriftina. „Þetta var stórfenglegur dagur. Mamma og amma komu út og tengdafjölskylda," segir Þorvaldur Davíð. Hannes vinur Þorvaldar og kærasta Hannesar fóru líka út til að vera viðstödd. Þorvaldur segir að sautján manns hafi útskrifast af leiklistarbrautinni, en samtals útskrifuðust hátt í 200 manns af öllum brautum skólans.

Næst á döfinni hjá Þorvaldi Davíð er að klára að leika í myndinni. Eftir það ætlar hann að hvíla sig. „Þá er ég búinn að hliðra þannig til að ég ætla að slappa af í tvær vikur," segir Þorvaldur Davíð. Hann hefur nýlega sett upp Óperu í Bandaríkjunum ásamt vini sínum, sem var frumsýnd 16. maí. Þeir félagarnir ætla að halda áfram með það verkefni og segir Þorvaldur Davíð að félagi hans muni koma til Íslands á næstunni í því skyni. Því næst ætlar Þorvaldur Davíð að flytja til Hollywood og reyna fyrir sér þar. „Ég held út í lok júnímánaðar," segir Þorvaldur Davíð. Hann er kominn með samning við umboðsskrifstofu sem vill að hann sé búsettur þar því til stendur að senda hann í leikprufur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×