Enski boltinn

Clijsters efst á heimslistanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Belginn Kim Clijsters situr nú í efsta sæti heimslistans í tennis en síðast var hún þar fyrir fimm árum síðan.

Clijsters fagnaði nýverið sigri á opna ástralska meistaramótinu en hún vann einnig síðasta risamót síðasta árs, opna bandaríska mótið í september.

Hún tók sér frí frá tennis árið 2007 en sneri aftur árið 2009. Hún eignaðist barn í febrúar árið 2008 og er fyrsta móðirin sem situr í efsta sæti heimslistans í tennis.

Caroline Wozniacki var í efsta sæti listans þar til á mánudaginn en um helgina komst Clijsters í úrslit á sterku móti í París en tapaði að vísu fyrir Petru Kvitova í úrslitunum. Árangurinn dugði þó til að komast upp fyrir Wozniacki á heimslistanum.

Clijsters var síðast í efsta sæti listans árið 2006, fyrir 256 vikum síðan. Það er þó ekki met þar sem 265 vikur liðu á milli þess sem að Serena Williams sat í efsta sæti listans, frá 2003 til 2008.

Þetta er alls í fjórða sinn sem hún kemst á topp listans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×