Erlent

Tíminn til að hemja hlýnun að renna út

Erfitt verður að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á borð við olíu.
Erfitt verður að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á borð við olíu. nordicphotos/AFP
„Við erum að stefna í ranga átt varðandi loftslagsbreytingar,“ segir Fatih Birol, aðalhagfræðingur Alþjóðlegu orkustofnunarinnar. Hann segist ekki bjartsýnn á að leiðtogar ríkja heims verði tilbúnir til að færa þær fórnir, sem þarf til að breyta um stefnu.

Í nýrri skýrslu stofnunarinnar um horfur í orkumálum næstu áratugina er því spáð að orkunotkun mannkyns muni aukast um þriðjung fram til ársins 2035, að því gefnu að þeim markmiðum, sem alþjóðasamfélagið hefur sett sér til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, verði framfylgt af varfærni. Níutíu prósent þessa vaxtar verða í ríkjum utan OECD.

Stofnunin segir tvennt næsta víst í framtíðinni: fólki heldur áfram að fjölga og tekjur halda áfram að hækka. Þrátt fyrir alla óvissu um framtíðina ætti að vera ljóst, að af þessu tvennu leiðir að orkuþörf mannkyns verður meiri.

„Stjórnvöld verða að grípa til strangari aðgerða til að efla fjárfestingu í hagkvæmri tækni sem notar lítið af kolefnum,“ segir Maria van der Hoeven, framkvæmdastjóri stofnunarinnar.

Verði ekki gripið til slíkra aðgerða fyrir árið 2017, verður orðið of seint að snúa við þeirri þróun að hlýnun jarðar verði meiri en tvær gráður á Celcius-kvarða.

Almennt hefur verið gengið út frá því að hlýnun jarðar megi ekki verða meiri en tvær gráður, ef afleiðingarnar eigi ekki að verða afdrifaríkar fyrir stóran hluta mannkyns.

Líklegasta framhaldið, samkvæmt spá orkustofnunarinnar, er sú að hlýnunin verði þegar fram líða stundir 3,5 gráður, jafnvel þótt öll ríki framfylgi þeim loforðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem þegar hafa verið gefin á alþjóðavettvangi.

Leggja þarf út í verulegan kostnað strax á allra næstu árum ef takast á að snúa þeirri þróun við. Allur dráttur á aðgerðum, þótt kostnaðarsamar séu, bitna hins vegar á framtíðinni: „Fyrir hvern Bandaríkjadal sem sparast í fjárfestingum í orkugeiranum fyrir árið 2020 þarf að verja 4,3 dölum til viðbótar eftir árið 2020 til þess að bæta fyrir aukinn útblástur,“ segir í skýrslunni. gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×