Enski boltinn

Coyle lofar Joe Riley í hástert - hvað verður um Grétar Rafn?

Eiríkur Stefán Ásgeeirsson skrifar
Samningur Grétars Rafns við Bolton rennur út í sumar og hann virðist ekki í náðinni eins og er.
Samningur Grétars Rafns við Bolton rennur út í sumar og hann virðist ekki í náðinni eins og er. Nordic Photos / Getty Images
Óvissa ríkir nú um framtíð Grétars Rafns Steinssonar hjá Bolton sem var ekki í leikmannahópi liðsins í 5-0 sigri liðsins á Stoke um helgina.

Varnarleikur Bolton hefur ekki verið upp á sitt besta í upphafi tímabilsins en Grétar hefur spilað sex deildarleiki af ellefu á tímabilinu, síðast gegn Swansea í lok október.

Nafn Grétars var svo hvergi að finna á leikmannalista Bolton um helgina, þrátt fyrir að flestir aðrir í liðinu sem geta spilað stöðu hægri bakvarðar eigi við meiðsli að stríða. Coyle ákvað frekar að tefla hinum tvítuga Joe Riley fram um helgina en hann hafði aldrei áður spilað í ensku úrvalsdeildinni.

Svo fór að Bolton vann stórsigur auk þess að halda hreinu í fyrsta sinn í deildinni síðan 13. ágúst. Riley átti frábæran leik og fékk heiðursskiptingu undir lok leiksins þar sem áhorfendur stóðu á fætur og gáfu honum dynjandi lófatak. „Hann átti ótrúlegan dag," sagði Coyle. „Hann er ungur en ef hann heldur áfram að læra gæti hann átt glæsilegan feril fram undan."

Samningur Grétars við Bolton rennur út í sumar en engar fregnir hafa borist af viðræðum um nýjan samning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×