Erlent

Til stuðnings Breivik

Tveir menn hafa verið ákærðir fyrir hatursglæpi og morðtilraunir í Svíþjóð. Þeir eru taldir hafa reynt að myrða tvo innflytjendur í Västerås í Svíþjóð til stuðnings við aðgerðir hryðjuverkamansins Anders Behring Breivik í Noregi.

Mennirnir eru 25 og 26 ára. Fórnarlömbin í málinu eru bæði frá suðurhluta Asíu og særðust lífshættulega. Annað fórnarlambanna svaf á bekk þegar ráðist var á það, fjórum dögum eftir árásirnar í Noregi. Tveimur dögum síðar var ráðist á annan mann og hann stunginn þar sem hann bar út póst.

Samkvæmt lögregluskýrslum öskraði annar mannanna á annað fórnarlamb sitt að það ætti að „fara heim“ og teiknaði hakakross á tösku þess. Í skýrslum kemur einnig fram að þeir hafi sent sín á milli skilaboð þar sem ódæðisverkum Breiviks var hælt. Þá sýni tölvur að þeir hafi farið inn á síður tileinkaðar kynþáttahatri fyrir fyrri árásina.

Mennirnir voru handteknir skömmu eftir seinni árásina en neita báðir sök. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×