Erlent

Kæra umfjöllun fjölmiðla um hryðjuverk

Myndir birtust af Breivik þar sem hann lék eftir árásir sínar í eyjunni. Þær vöktu óhug, sérstaklega meðal aðstandenda og þeirra sem lifðu af.
nordicphotos/afp
Myndir birtust af Breivik þar sem hann lék eftir árásir sínar í eyjunni. Þær vöktu óhug, sérstaklega meðal aðstandenda og þeirra sem lifðu af. nordicphotos/afp
Ungmenni sem komust lífs af úr Útey hinn 22. júlí hafa kært umfjöllun norska blaðsins Verdens gang til siðanefndar fjölmiðla þar í landi. Kvörtunin snýr að myndbirtingum af hryðjuverkamanninum Anders Behring Breivik þegar hann fór í vettvangsferð með lögreglunni í eyjuna.

„Ekkert okkar verðskuldar að vakna og sjá svona myndir eftir helvítið sem við höfum gengið í gegnum,“ segja systkinin Karoline og Magnus Håkonsen, sem komust lífs af með því að synda burt frá eyjunni, ásamt Fredrik Sletbakk. Þau segja orð ekki geta lýst því hversu erfitt hafi verið að sjá myndirnar.

Myndir af Breivik þar sem hann leikur eftir hvernig hann skaut ungmenni í Útey vöktu óhug, en þær birtust víða um heim. Aðstandendur fórnarlamba Breiviks höfðu áður lýst óánægju sinni en nú hefur verið formlega kvartað.

Formaður norska blaðamannafélagsins segist ekki hissa á kvörtuninni. Þó að ekki leiki vafi á því að vera Breiviks í eyjunni á nýjan leik hafi átt erindi við almenning hafi myndir af honum vakið mikil og neikvæð viðbrögð.

Siðanefndin hefur fengið tuttugu kvartanir vegna umfjöllunar fjölmiðla um hryðjuverkin 22. júlí. Meðal þeirra sem einnig hefur verið kvartað undan eru Dagbladet, Dagsavisen, TV2 og minni blöð.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×