Íslenski boltinn

Matthías: Urðum ekki lélegir á einni nóttu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson hefur skorað átta mörk í Pepsi-deildinni í sumar og hér fagnar hann einu þeirra. Hann vantar nú tvö mörk til þess að jafna sitt persónulega met þegar hann skoraði 10 mörk sumarið 2009.
Matthías Vilhjálmsson hefur skorað átta mörk í Pepsi-deildinni í sumar og hér fagnar hann einu þeirra. Hann vantar nú tvö mörk til þess að jafna sitt persónulega met þegar hann skoraði 10 mörk sumarið 2009. Fréttablaðið/Stefán
FH-ingar eru ekki búnir að segja sitt síðasta í Pepsi-deildinni í sumar þrátt fyrir að allir hafi verið búnir að afskrifa þá fyrir fjórum vikum. Fjórir sigrar í röð hafa skilað þeim inn í toppslaginn á ný þótt KR-ingar séu enn langt á undan þeim.

Fyrirliðinn Matthías Vilhjálmsson átti flottan leik á móti Víkingum í 15. umferðinni og sá til þess ásamt félögum sínum að FH-liðið fann ekki mikið fyrir því að spila manni færri í 55 mínútur á leið sinni að 3-1 útisigri í Víkinni.

Líður vel í framlínunni„Ég er búinn að vera fjóra leiki í framlínunni og við höfum unnið þá alla. Mér líður vel í framlínunni, ég get ekki neitað því. Atli Viðar meiddist, það voru fleiri menn að ganga í gegnum meiðsli og svo fór Hannes náttúrulega til Rússlands. Heimir vissi að ég gæti spilað frammi og ég gerði það oft í vetur. Hann ákvað að prófa þetta," segir Matthías en hann talar líka um breytt leikskipulag hjá liðinu.

„Við höfum breytt skipulaginu okkar aðeins, farið aftar á völlinn og reynt að vera þéttir til baka. Það hefur virkað mjög vel enn sem komið er. Menn fóru líka að gera þetta meira saman og margir leikmenn fóru að spila vel," segir Matthías. Hann segir að margir þættir komi inn í af hverju gekk ekki betur hjá liðinu framan af sumri.

„Ef við lítum yfir leikina í fyrri umferð þá spiluðum við mjög erfiða leiki útileiki á móti toppliðunum, Val, KR og ÍBV. Við erum búnir með alla þessa útileiki. Þá erum við líka í betra formi núna og skipulagið er betra," segir Matthías.

Spýta í lófana„Það er fullt af leikmönnum í þessu FH-liði sem hafa gríðarlega reynslu og þekkja ekkert annað en að vinna. Þegar gengur illa spýta menn ennþá meira í lófana til þess að rétta skútuna við. Hver og einn leikmaður hefur tekið til í sjálfum sér og þá fóru allir að róa í sömu átt. Þá fór þetta að ganga betur. Við vissum það alveg að við urðum ekki lélegir á einni nóttu eða á einni viku. Það ganga öll lið í gegnum mótlæti einhvern tímann á sumri og þetta er alls ekki búið," segir Matthías.

KR-ingar eru fimm stigum á undan FH-liðinu og eiga auk þess tvo leiki inni á þá. Íslandsmeistaratitilinn er því fjarlæg von fyrir Hafnarfjarðarliðið.

„Við ætlum bara að ná Evrópusæti því það er það eina sem við getum gert núna ef að við vinnum rest. Þá væri öruggt að við myndum fá Evrópusæti en við þurfum að treysta á aðra til þess að geta unnið titilinn," segir Matthías.

FH-liðið hefur sýnt styrk sinn í Kaplakrika, þar sem liðið hefur náð í 17 af 21 stigi í boði. Markatala liðsins í þessum sjö leikjum er 21-8, FH í hag.

„Við höfum ekki tapað í Krikanum ennþá og ætlum ekki að byrja á því. Það er okkar gryfja og við eigum eftir að fá öll toppliðin í Krikann, ÍBV og KR," segir Matthías en hann hefur ekki mikinn áhuga á því að ræða mögulega atvinnumennsku eftir þetta sumar.

„Það fín var reynsla að fara til Colchester í vetur en það verður bara að koma í ljós hvað verður því ég er ekki að pæla í því lengur. Ég vil eiginlega ekkert vera að tala um hugsanlega atvinnumennsku. Ég ætla bara að klára þetta tímabil og ef það gerist þá gerist það. Það eru alltaf einhverjar þreifingar en það er tvennt ólíkt að það séu þreifingar og að lið komi með tilboð," segir Matthías.

Ætlum ekki að taka létt á þeimFH-ingar fá næst Þórsara í heimsókn á sunnudaginn og silfurliðið úr bikarnum er sýnd veiði en ekki gefin.

„Mér finnst Þórsarar hafa komið hvað mest á óvart í sumar. Þeir komust í bikarúrslitaleikinn og eru síðan nokkuð fyrir ofan fallsæti. Mér finnst Palli hafa gert frábæra hluti með liðið og fengið það besta út úr mönnum. Þetta verður erfiður leikur því við vorum heppnir að ná stigi á móti þeim fyrir norðan í sumar þar sem við vorum einum fleiri í heilan hálfleik allavega. Við ætlum ekki að taka létt á þeim," segir Matthías og hann viðurkennir að þessa dagana sé skemmtilegt að spila með FH-liðinu.

„Það er allt annar andi í kringum félagið og þetta er miklu skemmtilegra. Við ætlum að halda því áfram. Þetta verður vonandi spennandi. Við ætlum að gera okkar og vonast til þess að úrslitin fari að falla með okkur."

FH-ingar lengi í gang í sumar alveg eins og í fyrraFH-ingar fóru fyrst almennilega í gang þegar fyrri umferðinni lauk og er þetta annað sumarið í röð sem FH-liðið hikstar framan af sumri en gefur síðan í um mitt sumar.

FH í fyrri umferðinni 2010-2011:

Leikir - Stig: 22 - 34

Sigrar - Jafntefli - töp: 9 - 7 - 6

Markatalan: 43-33 (1,9-1,5)

Hlutfall stiga: 51,5 prósent

FH í seinni umferðinni 2010-2011:

Leikir - stig: 15 - 38

Sigrar - Jafntefli - töp: 12 - 2 - 1

Markatalan (meðalskor í leik): 36-17 (2,4-1,1)

Hlutfall stiga: 84,4 prósent

Lið 15. umferðarinnarHér fyrir neðan má sjá þá ellefu leikmenn sem sköruðu fram úr í 15. umferð Pepsi-deildar karla en stillt er upp í leikkerfinu 3-5-2.

Óskar Pétursson - Grindavík

Jónas Tór Næs - Valur

Grétar Sigfinnur Sigurðarson - KR

Ólafur Örn Bjarnason - Grindavík

Ólafur Páll Snorrason - FH

Halldór Hermann Jónsson - Fram

Matthías Vilhjálmsson - FH

Halldór Orri Björnsson - Stjarnan

Ian Jeffs - ÍBV

Atli Guðnason - FH

Kolbeinn Kárason - Valur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×