Íslenski boltinn

FH-ingar góðir bæði manni fleiri og manni færri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Viðarsson hefur fengið tvö rauð spjöld á stuttum tíma.
Pétur Viðarsson hefur fengið tvö rauð spjöld á stuttum tíma. Mynd/Daníel
Rauðu spjöldin hafa svo sannarlega farið á loft í leikjum FH-inga í Pepsi-deild karla í sumar en þau eru orðin alls sjö í fimmtán leikjum. FH-ingar hafa fengið fjögur rauð sjálfir og mótherjar þeirra hafa þrisvar sinnum verið sendir snemma í sturtu. Nú er svo komið að það hefur vantað leikmann í annað liðið í leikjum FH í samtals 254 mínútur í sumar.

FH-ingar kunna líka það liða best að spila manni fleiri og manni færri ef marka má tölfræði liðsins við slíkar aðstæður í sumar. FH-ingar eru með markatöluna 5-2 þær 152 mínútur sem þeir hafa spilað ellefu á móti tíu og eru líka í plús þegar þeir hafa misst mann af velli.

Pétur Viðarsson hefur fengið tvö rauð spjöld í síðustu fjórum leikjum FH en FH-liðið hefur unnið þá báða, fyrst 3-2 sigur á Val og svo 3-1 sigur á Víkingum. Markatala FH-liðsins manni færri í þessum tveimur leikjum er 3-0. FH-ingar eru reyndar í 2. sæti yfir bestu markatölu liða sem spila tíu á móti ellefu en Stjörnumenn eru þar efstir á blaði með markatöluna 3-1.

Nýliðar Þórs og Víkings reka hins vegar lestina þegar kemur að því að nýta sér liðsmuninn. Þórsarar hafa reyndar bara lent einu sinni í slíkri aðstöðu og fengu þá á sig þrjú mörk á móti Stjörnunni.

Víkingar hafa aftur á móti þrisvar sinnum tapað leik í Pepsi-deildinni í sumar þar sem liðið hefur verið manni fleiri í heilan hálfleik eða lengur. Víkingar hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum undir þessum kringumstæðum (á móti KR 2-3 og FH 1-3) og þeir lágu einnig á móti Val í júní (1-2) þrátt fyrir að vera ellefu á móti tíu í meira en klukkutíma.

Víkingar hafa alls verið manni fleiri í 174 mínútur í sumar en markatala þeirra á þessum tíma er 2-5 mótherjum þeirra í hag.

Hér fyrir neðan má sjá markatölu liðanna í deildinni þegar þau spila ellefu á móti tíu eða tíu á móti ellefu.



Ellefu á móti tíu í sumar

FH +3 (5-2, 152 mín.)

Breiðablik +3 (3-0, 95)

KR +2 (3-1, 99)

Grindavík +2 (2-0, 58)

Keflavík +1 (1-0, 3)

Fram +1 (1-0, 12)

Fylkir 0 (0-0, 2)

Valur -3 (0-3, 78)

Þór Ak. -3 (0-3, 43)

Víkingur -3 (2-5, 174)

ÍBV ekkert rautt

Stjarnan ekkert rautt

Tíu á móti ellefu í sumar

Stjarnan +2 (3-1, 75 mín.)

FH +1 (3-2, 102)

KR +1 (2-1, 57)

Valur +1 (2-1, 64)

Þór 0 (2-2, 45)

Víkingur 0 (0-0, 1)

ÍBV -1 (1-2, 103)

Keflavík -1 (0-1, 84)

Fylkir -1 (0-1, 26)

Grindavík -2 (0-2, 69)

Breiðablik -3 (1-4, 94)

Fram ekkert rautt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×