Enski boltinn

Grétar Rafn: Deildin hefur aldrei verið sterkari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson í leik gegn Manchester United á Old Trafford í mars síðastliðnum. Hér er hann í baráttu við annan bakvörð, hinn franska Patrice Evra.
Grétar Rafn Steinsson í leik gegn Manchester United á Old Trafford í mars síðastliðnum. Hér er hann í baráttu við annan bakvörð, hinn franska Patrice Evra. Mynd/Nordic Photos/Getty
Keppnistímabilið í ensku úrvalsdeildinni hefst um helgina og eru tveir íslenskir knattspyrnumenn á mála hjá liðum deildarinnar að þessu sinni. Annar þeirra er bakvörðurinn Grétar Rafn Steinsson sem leikur með Bolton Wanderers. Þar er hann löngu orðinn fastamaður og er nú að hefja sitt fjórða heila tímabil með liðinu.

Grétar er 29 ára gamall og á langan feril að baki. Hann varð bæði Íslands- og bikarmeistari með ÍA áður en hann hélt til Sviss árið 2004. Þar lék hann með Young Boys í átján mánuði áður en hann samdi við AZ Alkmaar í Hollandi, þar sem hann var í tvö og hálft ár.

Í janúar árið 2008 keypti Gary Megson, þáverandi stjóri Bolton, Grétar Rafn til félagsins fyrir 3,5 milljónir punda. Í dag er hann mjög ánægður hjá félaginu en segir að fyrstu árin undir stjórn Megsons hafi verið mjög skrítin.

Sá nánast eftir félagaskiptunum„Ég sá nánast eftir því að hafa farið til Bolton. En eftir að Owen Coyle var ráðinn sá ég aftur ljósið og síðan þá hef ég notið þess mjög að spila hér. Hjá Bolton er komið mjög vel fram við leikmenn og vel hugsað um okkur. Það er þekkt að leikmenn hjá Bolton eiga það til að vera lengi hjá félaginu. Hér er mjög gott æfingasvæði, frábær völlur og við erum með lið sem er vel samkeppnishæft í ensku úrvalsdeildinni,“ segir Grétar.

Bolton endaði í fjórtánda sæti deildarinnar á síðasta tímabili en eftir að það vann 2-1 sigur á Arsenal í lok apríl datt allur botn úr leik liðsins sem tapaði síðustu fimm leikjum sínum á tímabilinu.

„Þegar lið eru búin að tryggja veru sína í deildinni þarf lítið til að það hægist verulega um. Vonandi náum við að halda dampi aðeins lengur í ár og setja meiri pressu á átta efstu lið deildarinnar,“ segir Grétar Rafn sem telur Bolton vera með lið sem geti gert góða hluti í vetur.

Tvö fótbrot„Við erum með virkilega sterkt byrjunarlið og höfum spilað ágætlega á undirbúningstímabilinu. Hins vegar höfum við misst mikið af leikmönnum og ekki enn tekist að fylla í þau skörð. Þess fyrir utan fótbrotnuðu tveir leikmenn á dögunum og vorum við ekki nema þrettán á æfingu í dag,“ segir hann en viðtalið var tekið á mánudaginn síðastliðinn. „Við fáum líklega tvo leikmenn í þessari viku og svo notum við yngri leikmenn til að fylla í hópinn.“

Hann segir erfitt fyrir lið eins og Bolton að keppa við stóru liðin á leikmannamarkaðnum.

„Deildin er sífellt að verða sterkari og hefur aldrei verið sterkari en nú frá því að ég kom til Englands. Hér geta bestu liðin keypt að vild og minni liðin bítast svo um stóru bitana sem stóru liðin vilja ekki.

Markaðurinn ber þess merki að stóru liðin eru undir mikilli pressu að standa sig og vinna titla. Því eru háar upphæðir greiddar fyrir leikmenn. Það er mikið undir og verður mjög spennandi að fylgjast með markaðnum þar til lokað verður fyrir félagaskipti um mánaðamótin.“

United með besta liðiðUm toppbaráttu deildarinnar segir hann ljóst að Manchester United, núverandi Englandsmeistari, sé með besta liðið. „Það sönnuðu United-menn á síðasta tímabili og undirstrikuðu í leiknum um Samfélagsskjöldinn um síðustu helgi,“ segir Grétar en þá vann United 3-2 sigur á grönnum sínum í City eftir að hafa verið 2-0 undir hálfleik.

„Það býr mikil geta í liðinu en í þessum leik sýndu leikmenn hversu gott hugarfar þeir eru með. Það þarf rétta hugarfarið til að vinna upp slíka forystu frekar en knattspyrnulega getu,“ segir Grétar.

„Svo verður gaman að fylgjast með Liverpool sem hefur mikið keypt og spurning hvort eyðslan skili einhverju. Maður veit svo aldrei hvað gerist hjá Arsenal og þá helst hvort félagið ætli loksins að kaupa einhverja leikmenn. Chelsea er stórt spurningarmerki og svo er það Manchester City sem getur keypt að vild. Það er gríðarlega mikið í húfi fyrir öll þessi lið.“

Á lokaári samningsinsGrétar er á lokaári samnings síns hjá Bolton en er ekki byrjaður að ræða við félagið um nýjan samning. „Aðalmálið fyrir liðið nú er að bæta við sig leikmönnum en ekki gera nýja samninga við leikmenn sem eru fyrir hjá félaginu. Framhaldið kemur svo bara í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×