Enski boltinn

Gael Clichy á leið í læknisskoðun hjá Man City

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Clichy varð Englandsmeistari með Arsenal árið 2004
Clichy varð Englandsmeistari með Arsenal árið 2004 Nordic Photos/AFP
Franski bakvörðurinn Gael Clichy er á leið í læknisskoðun hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester City. Talið er að City og Arsenal hafi komist að samkomulagi um kaupverð í kringum sjö milljónir punda. Clichy á eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal.

Skysports fréttastofan greindi frá því í morgun að myndir hefðu náðst af Clichy fyrir utan spítala í norðvestur hluta London í morgun. Þar er talið að Clichy sé í læknisskoðun.

Fyrir nokkrum vikum benti flest til þess að Clichy væri á leið til Liverpool en nú virðist City ætla að hafa betur í kapphlaupinu um leikmanninn. Clichy verður 26 ára síðar í mánuðinum og hefur spilað 10 landsleiki fyrir Frakkland.

Franski landsliðsmaðurinn sem hefur spilað yfir 250 leiki fyrir Arsenal frá því að hann kom til félagsins árið 2003 er ekki eini leikmaðurinn sem er orðaður við brotthvarf frá Arsenal þessa dagana. Landi hans, Samir Nasri, er einnig orðaður við City og þá bendir ýmislegt til þess að Cesc Fabregas sé á leiðinni heim til Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×