Fótbolti

Butt kominn aftur heim eftir misheppnað ævintýri í Hong Kong

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Nicky Butt, fyrrum leikmaður Manchester United og Newcastle, er kominn aftur til Englands eftir fremur misheppnaða dvöl hjá knattspyrnufélagi í Hong Kong.

Butt er 35 ára og var búinn að leggja skóna á hilluna þegar South China, stærsta knattspyrnufélag Hong Kong, bauð honum samning. Butt var ætlað það verkefni að hjálpa liðinu að vinna titla en það gekk ekki eftir.

South China er fallið úr leik í AFC-bikarnum og erkifjendur félagsins, Kitchee, vann meistaratitilinn í deildinni heima. Liðið er þó komið í undanúrslit bikarkeppninnar en Butt er engu að síður farinn aftur heim til Englands.

AFC-bikarinn er keppni minni félagsliða í Asíu, ekki ólíkt Evrópudeild UEFA. Einn liðsfélagi Butt hjá South China var Serbinn Mateja Kezman, fyrrum leikmaður Chelsea, og hann sagði keppnina vera „heimskulega“ og þá „verstu“ sem hann hafi tekið þátt í.

Engar skýringar voru gefnar á því af hverju Butt væri hættur að spila með South China.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×