Knattspyrnumaðurinn Haukur Ingi Guðnason er genginn til liðs við Grindavík.Þorsteinn Gunnarsson formaður knattspyrnudeildar segir vanta karaktera í Grindavíkurliðið og vonar að Haukur geti ekki síður styrkt liðið á því sviði.
Haukur Ingi var síðast á mála hjá Keflavík en hefur að undanförnu æft með Þrótti í Reykjavík.
„Haukur Ingi er búinn að vera frá lengi og hefur æft með Þrótti. Hann segist vera orðinn nokkuð góður," sagði Þorsteinn í spjalli við Vísi í dag. Þorsteinn segir Hauk Inga ekki aðeins vera frábæran knattspyrnumann heldur séu Grindvíkingar einnig að leita eftir þeim karakter sem hann hefur að geyma.
„Það er fullt af frábærum fótboltamönnum í liðinu okkar en það vantar svolítið karaktera í þetta lið. Þess vegna lítum við til hans að hann hjálpi okkur með andlegu hliðina í liðinu því það býr helling í þessu liði," sagði Þorsteinn.
Þorsteinn staðfesti að Frakkinn Yacine Si Salem væri á heimleið og myndi ekki spila meir með Grindavík á leiktíðinni.
„Hann fer heim á morgun. Við höfum gert starfslokasamning við hann og hann er á leiðinni heim. Hann stóð ekki undir væntingum."
