Enski boltinn

Bikarævintýri Stevenage á enda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ívar Ingimarsson í baráttu við leikmann Stevenage í dag.
Ívar Ingimarsson í baráttu við leikmann Stevenage í dag. Nordic Photos / Getty Images
Enska D-deildarliðið Stevenage er úr leik í ensku bikarkeppninni í fótbolta eftir að hafa tapað fyrir Reading í dag, 2-1.

Stevenage vann 3-1 sigur á Newcastle í síðustu umferð en náðu ekki að fylgja því eftir í dag þrátt fyrir hetjulega baráttu.

Mikele Leigertwood kom Reading yfir á 23. mínútu en Darius Charles náði þó að jafna metin fyrir heimamenn þegar átján mínútur voru eftir af leiknum.

Bæði lið fengu tækifæri til að skora sigurmarkið en Shane Long nýtti sitt þegar hann tryggði sínum mönnum 2-1 sigur, þremur mínútum fyrir leikslok.

Ívar Ingimarsson lék allan leikinn í liði Reading.

Sjö leikir fóru fram klukkan 15.00 í enska bikarnum í dag en aðeins einn úrvalsdeildarslagur. Í honum skildu Bolton og Wigan jöfn í markalausum leik.

Grétar Rafn Steinsson lék ekki með vegna meiðsla.

Aron Einar Gunnarsson lék hins vegar allan leikinn fyrir Coventry sem tapaði fyrir Birmingham á útivelli, 3-2, eftir að hafa komist 2-0 yfir.

Kevin Phillips tryggði Birmingham sigur en þeir David Bentley og Stuart Parnaby skoruðu hin mörk liðsins í dag.

Annars bar það helst til tíðinda að utandeildarlið Crawley Town vann góðan sigur á D-deildarliðinu Torquay og er komið áfram í 16-liða úrslit keppninnar.

Einn leikur er eftir í ensku bikarkeppninni í dag en það er viðureign Southampton og Manchester United sem hefst klukkan 17.15.

Úrslit dagsins:



Aston Villa - Blackburn 3-1

Birmingham - Coventry 3-2

Bolton - Wigan 0-0

Burnley - Burton Albion 3-1

Everton - Chelsea 1-1

Sheffield Wednesday - Hereford 4-1

Stevenage - Reading 1-2

Swanssea - Leyton Orient 1-2

Torquay - Crawley Town 0-1

Watford - Brighton 0-1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×