Enski boltinn

Aquilani á leið til AC Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alberto Aquilani í leik með Liverpool í sumar.
Alberto Aquilani í leik með Liverpool í sumar. Nordic Photos / Getty Images
Umboðsmaður Alberto Aquilani segir að allar líkur séu á að leikmaðurinn sé á leið til AC Milan og að frá því verði gengi í vikunni.

Aquilani greindi sjálfur frá því um helgina að hann ætti von á því að fara frá félaginu eftir að forráðamenn AC Milan greindu frá sínum áhuga.

Hann er á mála hjá Liverpool í Englandi en þar hefur Kenny Dalglish, stjóri liðsins, verið duglegur að kaupa miðvallarleikmenn í sumar. Aquilani var lánaður til Juventus síðastliðið tímabil og gekk þar vel.

Juventus var hins vegar ekki reiðubúið að greiða uppsett verð og því hefur Aquilani æft með Liverpool í sumar.

„Það er verið að vinna að þessu og þetta verður allt ákveðið á miðvikudag eða fimmtudag,“ sagði umboðsmaðurinn Franco Zavgalia við ítalska fjölmiðla.

Silvio Berlusconi, forseti AC Milan, segir að félagið eigi nú í viðræðum um Aquilani. „Mér líkar vel við hann - hann er athyglisverður leikmaður. Við munum sjá til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×