Enski boltinn

Markvörður á leiðinni og Scholes gæti hætt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
David Gill, framkvæmdarstjóri Manchester United, segir að félagið sé nálægt því að fá nýjan markvörð til liðs við sig og að það sé möguleiki á því að Paul Scholes hætti í sumar.

Edwin van der Sar leggur hanskana á hilluna í sumar en þeir Maarten Stekelenburg, David de Gea og Manuel Neuer hafa helst verið orðaðir við United. Sá síðastnefndi er reyndar á leiðinni til Bayern.

„Við vitum hvaða markvörð við viljum fá og við erum í góðri stöðu. Ég er viss um að við getum gengið frá þessum málum,“ sagði Gill við enska fjölmiðla.

Hann sagði einnig framtíð Paul Scholes sé óráðin. „Það kæmi mér ekki á óvart ef hann myndi hætta. Við munum ræða þessi mál við Alex Ferguson í lok tímabilsins.“

„Ég er viss um að Paul muni láta okkur vita hver hans ákvörðun verður og við munum virða hana. Hann hefur verið frábær leikmaður sem hefur þjónað félaginu vel í mörg ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×