Enski boltinn

Meireles tryggði Liverpool sigur á Chelsea

Elvar Geir Magnússon skrifar

Skynsamt og skipulagt lið Liverpool vann í dag sinn fjórða sigur í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar það lagði Chelsea 1-0 á útivelli í stórleik helgarinnar.

Raul Meireles hefur verið sjóðheitur að undanförnu og skoraði hann eina mark leiksins á 69. mínútu. Þetta var fjórða mark hans í fimm leikjum.

Petr Cech fær skammir í hjálminn fyrir hans þátt í marki Liverpool. Steven Gerrard átti fyrirgjöf sem átti að vera auðveld viðureignar fyrir markvörðinn en hann gerði slæm og dýrkeypt mistök.

Það var fátt um færi í leiknum heilt yfir en Maxi Rodríguez fékk þó sannkallað dauðafæri í fyrri hálfleiknum og með hreinum ólíkindum að hann hafi ekki náð að skora, skot hans hafnaði í slánni.

Fernando Torres lék fyrstu 66 mínúturnar í leiknum og slapp við tæklingu frá Jamie Carragher. Torres hafði hægt um sig í leiknum. Carragher var að spila sinn fyrsta leik eftir meiðsli og átti mjög góðan leik.

Chelsea gerði tilkall til vítaspyrnu seint í leiknum en ekkert var dæmt.

Eftir þennan sæta sigur Liverpool er liðið komið upp í sjötta sæti deildarinnar en Kenny Dalglish hefur gert kraftaverk með þetta lið á skömmum tíma. Chelsea er í fjórða sæti, tíu stigum á eftir toppliði Manchester United.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×