Enski boltinn

Heiðar tryggði QPR sigur á Chelsea - öll úrslitin í enska í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heiðar Helguson.
Heiðar Helguson. Mynd/AP
Heiðar Helguson tryggði nýliðum Queens Park Rangers óvæntan 1-0 sigur á Chelsea í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Heiðar skoraði eina mark leiksins úr víti sem hann fékk sjálfur á 10. mínútu en annars var þetta ótrúlegur knattspyrnuleikur þar sem Chelsea-liðið faldi það mjög vel að vera níu á móti ellefu í 49 mínútur.

Chelsea mistókst þar með að komast upp fyrir Manchester United og í annað sætið. Chelsea er nú sex stigum á eftir toppliði Manchester City og einu stigi á eftir United. Queens Park Rangers komst hinsvegar upp í 10. sæti deildarinnar með þessum sigri.

Chelsea lék tveimur mönnum færri allan seinni hálfleikinn en var engu að síður nokkrum sinnum mjög nálægt því að jafna leikinn. Bestu færin fengu þeir Frank Lampard, David Luiz og Nicolas Anelka.

Heiðar fiskaði víti á Chelsea-manninn David Luiz á 10. mínútu eftir að þeir höfðu verið að kljást um boltann og Heiðar skoraði síðan sjálfur úr vítinu.

Bosingwa var síðan rekinn útaf á 33. mínútu eftir að hann felldi Shaun Wright-Phillips sem var að sleppa í gegn og aðeins átta mínútum síðar voru Chelsea-menn orðnir tveimur mönnum færri eftri að Didier Drogba fékk beint rautt spjald fyrir tveggja fóta tæklingu.

Chelsea byrjaði seinni hálfleikinn á stórsókn þrátt fyrir að vera tveimur mönnum færri. Bæði lið fengu síðan fín færi það sem eftir lifði leiksins og þar á meðal Heiðar Helguson sem hefði nánast getað gulltryggt sigur QPR á 77. mínútu. QPR hélt út og fagnaði óvæntum sigri.



Úrslit og markaskorarar í ensku úrvalsdeildinni í dag:

Arsenal - Stoke    3-1

1-0 Gervinho (27.), 1-1 Peter Crouch (34.), 2-1 Robin van Persie (73.), 3-1 Robin van Persie (82.)

Fulham - Everton    1-3

0-1 Royston Drenthe (3.), 1-1 Bryan Ruiz (67.), 1-2 Louis Saha (90.+1), 1-3 Jack Rodwell (90.+3)

Manchester United - Manchester City    1-6

0-1 Mario Balotelli (22.), 0-2 Mario Balotelli (60.), 0-3 Sergio Agüero (69.), 1-3 Darren Fletcher (80.), 1-4 Edin Dzeko (89.), 1-5 David Silva (90.+1), 1-6 Edin Dzeko (90.+3)

Blackburn - Tottenham    1-2

0-1 Rafael van der Vaart (15.), 1-1 Mauro Formica (xx.), 1-2 Raphael van der Vaart (53.)

Queens Park Rangers - Chelsea    1-0

1-0 Heiðar Helguson, víti (10.)

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×