Enski boltinn

Tevez er sár og reiður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Fjölmiðlafulltrúi Carlos Tevez segir að leikmaðurinn sé sár og reiður vegna þeirra ásakana að hann hafi neitað að spila með félaginu.

Í gær birti Manchester City niðurstöður nefndar sem rannsakaði mál Tevez en honum var gefið að sök að hafa neitað að koma inn á sem varamaður í leik City gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu. Tevez var sektaður um fjögurra vikna laun og settur í tveggja vikna bann, sem hann hefur þegar tekið út.

Tevez er afar ósáttur við niðurstöðuna og íhugar nú að lögsækja Roberto Mancini, stjóra City, vegna þeirra ummæla sem hann lét falla eftir leikinn. Mancini staðhæfði þá að Tevez hafi neitað að spila en sjálfur sagði kappinn að um misskilning hafi verið að ræða.

Eftir rannsóknina breytti City hins vegar kæru sinni og var honum refsað fyrir að neita að hita upp þegar eftir því var leitað.

„Honum sárnar þær ásakanir að hann hafi neitað að spila þegar kæra City gekk út á að hann hafi neitað að hita upp,“ sagði fjölmiðlafulltrúinn við enska fjölmiðla.

„Honum finnst að orðspor hans hafi hlotið skaða af þessari umræðu. Hann neitar þessum ásökunum staðfastlega og ætlar að berjast gegn þeim af öllum krafti.“

Hann segir þó að Tevez muni byrja að æfa á ný ef eftir því verður leitað. Það sé þó alls óvíst hvað taki við, því Mancini hafi sagt að Tevez muni aldrei aftur spila með Manchester City. Sjálfur er Tevez opinn fyrir öllum möguleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×