Enski boltinn

Aron Einar: Lið í ensku úrvalsdeildinni hafa sýnt áhuga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í baráttu við Didier Drogba.
Aron Einar Gunnarsson í baráttu við Didier Drogba. Mynd/Nordic Photos/Getty
Aron Einar Gunnarsson var í viðtali við Hans Steinar Bjarnason í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem íslenski landsliðsmaðurinn tjáði sig um framtíð sína hjá enska félaginu Coventry. Hann er ekki alltof bjartsýnn á að spila áfram á Ricoh Arena á næsta tímabili.

„Ég vona að þetta komi í ljós í næstu viku og ég reikna fastlega með því. Ég efa það samt að ég verði áfram hjá Coventry," segir Aron Einar sem segir að viðræður við enska félagið séu á byrjunarreit.

„Ef við getum komist að niðurstöðu með nýjan samning þá er það náttúrulega spennandi kostur en það er ekki eini spennandi kosturinn í stöðunni. Ég má samt ekki gefa mikið upp um þá eins og stendur. Þetta kemur vonandi allt í ljós í næstu viku," segir Aron Einar.

„Ég spilaði mjög vel í síðustu tíu leikjum og var farinn að finna mitt besta og gamla form. Þá vissi að úrvalsdeildarliðin fóru að fylgjast með mér því þau vissu líka að ég var að verða samningslaus hjá Coventry," segir Aron Einar og bætir við:

„Úrvalsdeildarliðin fóru að sína mér áhuga aftur og það eru spennandi tímar framundan. Ég þarf í rauninni ekki að flýta mér en ég vill klára þetta fyrir EM svo að ég sé ekki með þetta á bakinu á því móti," sagði Aron Einar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×