Íslenski boltinn

Ameobi: ÍA kemst upp í næsta leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tomi Ameobi var hetja BÍ/Bolungarvíkur í kvöld er hann skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri liðsins á toppliði ÍA í 1. deildinni.

Skagamenn dugði jafntefli í kvöld til að tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni fyrir næstu leiktíð en fær aftur möguleika til þess í næstu umferð.

„Það er erfitt að koma hingað enda hefur ÍA ekki tapað hér í allt sumar,“ sagði Ameobi en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan. „Það er skiljanlegt enda ÍA með mjög gott lið. Ég óska þeim alls hins besta í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð. Þeir komast pottþétt upp og þá líklega í næsta leik.“

Síðast þegar þessi lið mættust unnu Skagamenn 6-0 sigur. „Þjálfarinn hefur talað mikið um þann leik í vikunni. Við gerðum mistök í þeim leik en mættum hingað í kvöld með öðruvísi hugarfari. Strákarnir hafa lagt mikið á sig alla vikuna.“

Fjölmargir Englendingar eru í liði Djúpmanna en einnig tveir í liði ÍA. Þeir voru því fjölmennir inn á vellinum í kvöld sem Ameobi segir hafa verið skemmtilegt.

„Það var kannski aðeins meira skipst á skotum. En ég þekki þá Gary og Mark vel og það var gaman að sjá þá aftur.“

Honum líður vel á Íslandi og sér ekki eftir því að hafa komið. „Það hefur gengið á ýmsu hjá liðinu en tímabilið hefur verið gott heilt yfir. Ég vona bara að við endum eins ofarlega og mögulegt er.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×