Enski boltinn

Sir Alex bannað að tala um Evra-Suarez deiluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur fengið skýr skilaboð frá enska knattspyrnusambandinu að tjá sig ekki frekar um ásakanir Patrice Evra á hendur Luis Suarez um meinta kynþáttafordóma.

Evra kvartaði undan Luis Suarez í jafnteflisleik Manchester United og Liverpool á dögunum en ekkert hefur fundist sem sannar þær alvarlegu ásakanir franska bakvarðarins.

Enska knattspyrnusambandið hefur hafið sína rannsókn á málinu og er búið að tala við Patrice Evra. Ferguson má ekki tjá sig um málið á meðan það er í rannsókn.

„Enska sambandið talaði við Patrice í gær og þeir sendu okkur tilmæli í dag að við mættum ekki ræða þetta mál meðan að það væri í rannsókn. Ég hef nóg að segja um þetta mál en ég verð víst að hlusta á þá. Ég hef vissulega sérstakan áhuga á að tala um Pat á þessum tímapunkti en leyfum þeim að halda rannsókninni áfram," sagði Sir Alex Ferguson og skaut aðeins á „vin" sinn Kenny Dalglish.

Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, sagði fyrr í þessari viku að allir í Liverpool stæðu hundrað prósent að baki Luis Suarez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×