Enski boltinn

Ferguson óviss með Hargreaves

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Hargreaves hefur verið lengi frá.
Hargreaves hefur verið lengi frá. Nordic Photos/Getty Images
Sir Alex Ferguson ætlar að bíða og sjá til hvort að Owen Hargreaves muni spila með Manchester United á þessari leiktíð. Hargreaves hefur aðeins leikið í tíu mínútur á síðustu tveimur leiktíðum með United en hann hefur átt við þrálát hnémeiðsli að stríða.

„Við söknum hans því hann er mjög góður leikmaður," segir Ferguson en Hargreaves snýr aftur til æfinga hjá liðinu á morgun. „Hann snýr aftur til æfinga á morgun en við munum bíða og sjá hvað gerist."

„Við erum með sterkan leikmannahóp með mikið af miðjumönnum líkt og Carrick, Anderson, Gibson, Scholes, Fletcher og Giggs. Við höfum því haft ágæta breidd og Antonio Valencia hefur verið frá nánast alla leiktíðina en Nani hefur verið frábær. Það kemur maður í manns stað," segir Ferguson.

Hargreaves kom til United árið 2007 og samningur hans við liðið rennur út í sumar. Óljóst er hvort hann fái nýjan samning hjá liðinu enda hefur hann lítið getað leikið með liðinu vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×