Enski boltinn

Dalglish vonast eftir góðri hegðun stuðningsmanna Sunderland

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Henderson lengst til vinstri ásamt Charlie Adam, Dalglish, Doni og Downing.
Henderson lengst til vinstri ásamt Charlie Adam, Dalglish, Doni og Downing. Nordic Photos/AFP
Kenny Dalglish, knattspyrnustjóri Liverpool, segir ástæðulaust fyrir stuðningsmenn Sunderland að baula á Jordan Henderson. Líklegt er að Henderson, sem gekk til liðs við Liverpool frá Sunderland í sumar, verði í liðinu á Anfield á laugardag.

„Jordan er leikmaður sem þeir þurftu að sjá á eftir. Hann er mjög góður leikmaður sem þeir vildu skiljanlega ekki missa. Stundum þarf knattspyrnustjórinn að vera skynsamur, hugsa út fyrir kassann og leyfa leikmanni sem vill yfirgefa félagið að fara,“ sagði Kenny Dalglish við enska fjölmiðla.

„Ég efast um að stuðningsmenn Sunderland verði með einhver illindi gagnvart Jordan. Leikurinn gegn Sunderland verður erfiður. Þeir hafa skipt út ótrúlega mörgum leikmönnum í sumar,“ segir Dalglish. Steve Bruce knattspyrnustjóri Sunderland bætti við sínum tíunda nýja leikmanni á dögunum.

Annars er það að frétta úr herbúðum Liverpool að Luis Suarez er mættur til æfinga eftir hlé sem hann fékk að loknum Suður-Ameríkubikarnum. Hann gæti verið í byrjunarliðinu á laugardag. Þá er Andy Carroll búinn að ná sér af meiðslum.

„Meiðsli Andy þýddu að hann gat sjaldnast æft af fullum krafti á síðustu leiktíð. Hann spilaði meira að segja leiki þegar hann var ekki í toppstandi. Nú hefur hann náð sér að fullu og hefur getað sýnt sitt rétta andlit á æfingum. Það hefur sýnt sig í leikjunum að undanförnu. Hann er í betra formi og hefur skorað mörk,“ sagði Dalglish.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×