Enski boltinn

Redknapp: Evrópudeildin lýjandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. Nordic Photos / Getty Images.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, hefur áhyggjur af álaginu sem fylgir því að spila í Evrópudeild UEFA í vetur og að það gæti reynst liðinu banabiti í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham hefur keppni í Evrópudeildinni í umspilsumferðinni sem fer fram dagana 18. og 25. ágúst. Ef liðið kemst áfram í riðlakeppnina taka við fjöldi leikja víða um Evrópu. Þeir leikir fara fram á fimmtudögum en Tottenham þarf svo að spila í ensku úrvalsdeildinni um helgar.

Redknapp ætlar að dreifa álaginu á leikmannahópinn og leyfa yngri og óreyndari leikmönnum að spreyta sig í Evrópudeildinni.

„Ungum strákum verður gefið tækifæri í Evrópudeildinni," sagði Redknapp við enska fjölmiðla. „Annars getur þessi keppni drepið vonir okkar í ensku úrvalsdeildinni."

„Maður á engan möguleika í ensku úrvalsdeildinni með því að spila alltaf á fimmtudögum og sunnudögum. Þetta er alger martröð."

„Við munum þurfa að ferðast víða í þessari keppni. En við ætlum að gera okkar besta í keppninni og láta reyna á þetta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×