Enski boltinn

Upson til Stoke á frjálsri sölu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Upson í baráttu við Ryan Giggs á síðustu leiktíð.
Upson í baráttu við Ryan Giggs á síðustu leiktíð. Nordic Photos/AFP
Miðvörðurinn Matthew Upson er genginn til liðs við Stoke City. Upson, sem skrifaði undir tveggja ára samning við enska úrvalsdeildarfélagið, kemur til félagsins á frjálsri sölu.

Upson, sem á að baki 21 landsleik fyrir England, var á mála hjá West Ham undanfarin fjögur tímabil en samningur hans við Lundúnarfélagið var ekki endurnýjaður í vor. Upson er annar miðvörðurinn sem gengur til liðs við Stoke á frjálsri sölu í sumar. Jonathan Woodgate er einnig kominn til Stoke.

„Reynsla þeirra á stóra sviðinu á eftir að hjálpa okkur mikið enda erum við með unga varnarmenn og markvörð," sagði Tony Pulis knattspyrnustjóri Stoke.

Samkeppni um miðvarðarstöðuna hjá Stoke er töluverð. Fyrir eru Ryan Shawcross og Robert Huth sem hafa verið lykilmenn hjá félaginu undanfarin ár.

Upson mætir á sína fyrstu æfingu hjá Stoke í dag og verður líklega í leikmannahópnum á sunnudaginn þegar liðið tekur á móti Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×