Ótrúleg úrslit voru í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni en þá vann Blackburn 4-3 sigur á Arsenal. Síðarnefnda liðið skoraði tvö sjálfsmörk í leiknum en þetta var fyrsti sigur Blackburn á leiktíðinni.
Gervinho og Mikel Arteta skoruðu sín fyrstu mörk fyrir Arsenal í fyrri hálfleik og var staðan að honum loknum 2-1 fyrir gestina.
Yakubu skoraði mark Blackburn í fyrri hálfleik en snemma í síðari hálfleik varð Alex Song, sem lagði upp mark Gervinho með laglegri sendingu, fyrir því óláni að stýra knettinum í markið af stuttu færi.
Yakubu kom svo Blackburn yfir þegar hann stýrði fyrirgjöf Steven Nzonzi í markið í markteignum en endursýningar sýndu að hann var rangstæður þegar sendingin kom. Markið fékk engu að síður að standa.
Ólán Arsenal var svo algert stuttu síðar þegar að Blackburn komst í skyndisókn. Johan Djourou gerði sig sekan um slæm mistök og Martin Olsson komst upp að endamörkum þar sem hann sendi fyrir markið, beint í Laurent Koscielny sem varð að horfa á eftir knettinum í eigið net.
Varamaðurinn Marouane Chamakh náði svo að minnka muninn fyrir Arsenal með fínu skallamarki eftir sendingu Robin van Persie. Þetta var fyrsta mark Chamakh á árinu og fagna því sjálfsagt margir.
Leikmenn Arsenal sóttu nokkuð stíft á lokamínútunum en allt kom fyrir ekki. Liðið er því með fjögur stig eftir fimm leiki og því enn í neðri hluta deildarinnar.
Gervinho lék í dag sinn fyrsta leik eftir að hafa tekið út leikbann og Andre Santos lék sinn fyrsta leik með Arsenal en hann var keyptur í lok síðasta mánaðar.
Blackburn vann í dag sinn fyrsta sigur á tímabilinu og var stjóri liðsins, Steve Kean, sjálfsagt manna fegnastur í leikslok en hann hefur verið sagður afar valtur í sessi. Fyrir leikinn fóru stuðningsmenn Blackburn í mótmælagöngu og kröfðust þess að hann yrði rekinn frá félaginu.
Ófarir Arsenal halda áfram - tapaði 4-3 fyrir Blackburn
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið

Endurkomusigur í stórskemmtilegum opnunarleik
Enski boltinn

„Ég hélt að við værum komin lengra“
Enski boltinn


„Betra er seint en aldrei“
Enski boltinn



Opnunarleikurinn var stöðvaður vegna kynþáttaníðs
Enski boltinn



Gummi Ben og Hjörvar Hafliða fóru að rífast
Enski boltinn