Enski boltinn

Markasúpa í enska boltanum í dag - Yakubu með fernu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fjölmargir leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í dag, en þremur þeirra lauk nú fyrir stundu. Gríðarlega mörg mörk litu dagsins ljóst og menn vel með á nótunum.

Tottenham tók á móti Bolton á White Hart Lane í Lundúnum og sigruðu heimamenn 3-0.  Gareth Bale kom heimamönnum yfir strax á upphafsmínútum leiksins þegar hann smellti boltanum í netið eftir fyrirgjöf frá Luka Modrid. Aðeins tíu mínútum síðar fékk Gary Cahill, leikmaður Bolton, rautt spjald fyrir heldur gróft brot og gestirnir því einum færri út leikinn.

Eftir aðeins nokkra mínútna leik í síðari hálfleik dró aftur til tíðinda þegar heimamenn gerðu sitt annað mark í leiknum. Aaron Lennon skoraði fínt mark eftir stoðsendingu frá Jermain Defoe. Jermain Defoe kom síðan Tottenham í 3-0 tíu mínútum síðar. Tottenham komst í annað sæti deildarinnar með sigrinum, en liðið hefur 31 stig. Manchester United getur aftur á móti komist upp fyrir þá síðar í kvöld.

Wigan tók á móti Arsenal á DW vellinum í Wigan. Mikel Arteta skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Arsenal, en markið kom eftir tæplega hálftíma leik. Thomas Vermaelen   kom Arsenal tveimur mörkum yfir aðeins mínútu síðar og Arsenal fór því í leikhlé með vænlega stöðu. Gervinho skoraði þriðja mark Arsenal í upphafi síðari hálfleiks.

Síðan var komið að markamaskínu skyttnanna Robin van Persie að skora en hann gerði fjórða mark Arsenal tíu mínútum fyrir leikslok. Arsenal er í fimmta sæti deildarinnar með 26 stig, en Bolton er í næstneðsta sætinu með aðeins níu stig. Skelfilega staða hjá Bolton.

Blackburn tók á móti Swansea á Ewood Park, heimavelli Blackburn, en heimamenn tóku forystuna eftir tuttugu mínútna leik þegar Aiyegbeni Yakubu skoraði. Leroy Lita jafnaði síðan metin fyrir Swansea rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og því var staðan 1-1 í hálfleik. Síðari hálfleikurinn hófst með miklum látum og skoruðu heimamenn tvö mörk á stuttum tíma og breyttu stöðunni í 3-1 fyrir Blackburn.

Það var enginn annar en Aiyegbeni Yakubu sem gerði bæði mörkin fyrir Blackburn og hafði fullkomnað þrennuna þegar um klukkustund var liðin af leiknum. Luke Moore náði að minnka muninn fyrir Swansea á ný þegar hann skoraði rúmlega tuttugu mínútum fyrir leikslok og setti mikla spennu í leikinn.

Yakubu skoraði sitt fjórða mark tíu mínútum síðar og fullkomnaði fernuna, en markið gerði hann úr vítaspyrnu. Blackburn lyfti sér upp fyrir Bolton í 18. sætið með sigrinum í dag en stigin þrjú gefa félaginu örlitla von um að halda sér uppi.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.



Úrslit dagsins:



12:45: Newcastle - Chelsea 0-3

15:00: Blackburn - Swansea City 4-2

15:00: Manchester City - Norwich City 5-1

15:00: Queens Park Rangers - West Bromwich 1-1

15:00: Tottenham - Bolton 3-0

15:00: Wigan - Arsenal 0-4

17:30: Aston Villa - Manchester United (Sport 2 & HD)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×