Enski boltinn

Chelsea vann 3-0 í Newcastle og hoppaði upp í 3. sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Chelsea fagnaði 3-0 sigri á Newcastle á Sports Direct Arena, áður St. James´s Park, í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar. Þetta var annar deildarsigur Chelsea í röð og kemur liðinu upp í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Tottenham getur endurheimt það seinna í dag.

Það var mikið fjör í leiknum og nóg af færum en liðin skutu sem dæmi samtals fimm sinnum í marksúlurnar í þessum stórskemmtilega leik.

Chelsea fékk nóg af færum í fyrri hálfleik en gat síðan þakkað fyrir að fá ekki á sig jöfnunarmark í seinni hálfleiknum áður en Salomon Kalou og Daniel Sturridge innsigluðu sigurinn skömmu fyrir leikslok.

Newcastle tapaði þarna sínum fyrsta heimaleik á tímabilinu en liðið hefur aðeins náð í eitt stig í síðustu þremur leikjum sínum á móti Manchester United, Manchester City og Chelsea.

Tim Krul hélt Newcastle inn í leiknum í fyrri hálfleik en Chelsea-maðurinn David Luiz var heppinn að fá ekki rauða spjaldið þegar hann braut á Demba Ba strax á fjórðu mínútu leiksins.





Mynd/AP
Tim Krul varði vítaspyrnu Frank Lampard á 13. mínútu en hún var dæmd á Yohan Cabaye fyrir að fella Daniel Sturridge. Krul fór of snemma af línunni en komst upp með það og varði vítið glæsilega. Þetta var fjórða vítið sem Lampard klúðrar í ensku úrvalsdeildinni á ferlinum.

Daniel Sturridge labbaði hvað eftir annað í gegnum Newcastle á þessum kafla. Þremur mínútu eftir vítið varði Krul skot frá honum í stöngina og á 25. mínútu varði Krul frá Sturridge úr dauðafæri.

Peter Cech varði vel frá Demba Ba á 25. mínútu og tíu mínútum síðar átti Ba skalla í stöngina en John Terry var nærri því búinn að skora sjálfsmark þegar hann ætlaði að sparka boltanum í burtu.

Chelsea tókst loksins að koma boltanum framhjá Tim Krul á 38. mínútu þegar Didier Drogba skallaði boltann í markið eftir fyrirgjöf frá Juan Manuel Mata. Þetta var aðeins annað deildarmark Drogba á tímabilinu til þessa.

Tim Krul átti eftir að verja einu sinni enn glæislega frá Daniel Sturridge sem var hreinlega fyrirmunað að koma boltanum framhjá hollenska markverðinum í fyrri hálfleiknum.

Didier Drogba var nærri því búinn að skora sjálfsmark á 55.mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu í slána á eigin marki og í kjölfarið náði Chelsea skyndisókn þar sem Ramires komst einn í gegn en Krul varði enn einu sinni frábærlega.

Mynd/Nordic Photos/Getty
Chelsea-menn voru heppnir að fá ekki á sig jöfnunarmark á lokakafla leiksins, fyrst bjaraði John Terry á línu og svo átti Shola Ameobi þrumuskot í slána á marki Chelsea.

Salomon Kalou kom Chelsea í 2-0 á 89.mínútu eftir að hafa fengið stoðsendingu frá Fernando Torres en þeir komu báðir inn á sem varamenn í leiknum.

Daniel Sturridge tókst síðan loksins að skora í uppbótartímanum eftir sendingu frá Ramires en Sturridge fékk fjölmörg dauðafæri í þessum leik.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×