Enski boltinn

Sonur Paul Ince slær í gegn með Blackpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Hinn nítján ára Tom Ince hefur slegið í gegn með Blackpool í ensku B-deildinni en hann tryggði sínum mönnum sigur á Doncaster á þriðjudagskvöldið eftir að hafa komið inn á sem varamaður og skorað tvö mörk.

Ince kom í sumar frá Liverpool eftir að hafa verið í láni hjá Notts County á síðustu leiktíð. Tom er sonur Paul Ince, fyrrum fyrirliða enska landsliðsins og leikmanni Manchester United, Inter og Liverpool.

Hann hefur fengið nokkur tækfæri í haust og tvisvar verið í byrjunarliðinu. En mörkin í gær voru þau fyrstu sem hann skoraði fyrir félagið. Blackpool var undir gegn Doncaster þegar Ince var sendur inn á völlinn og skoraði hann bæði mörk sinna manna í 2-1 sigri.

„Ég hef notið hverrar mínútu sem ég hef fengið. Ég er enn bara nítján ára gamall og það eru margir sterkir leikmenn í liðinu. En ég verð að vera þolinmóður og bíða eftir mínum tíma. Ef ég held áfram á þessari braut tekst mér kannski að vinna mér fast sæti í byrjunarliðinu."

„Ég er samt mjög ánægður eins og er, óháð því hversu mikið ég hef fengið að spila. Ég á margt enn ólært en það er ljóst að það hjálpaði sjálfstraustinu mikið að skora þessi tvö mörk."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×