Enski boltinn

Fórnarlamb Rooney segir að þriggja leikja bannið sé alltof strangt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney sparkar hér aftan í Miodrag Dzudovic.
Wayne Rooney sparkar hér aftan í Miodrag Dzudovic. Mynd/Nordic Photos/Getty
Miodrag Dzudovic, varnarmaður landsliðs Svartfjallalands sem Wayne Rooney sparkaði aftan í á dögunum og fékk rautt spjald fyrir, hefur boðist til að tala máli enska landsliðsmannsins ef að enska knattspyrnusambandið ákveður að áfrýja leikbanni Rooney.

Knattspyrnusamband Evrópu dæmdi Wayne Rooney í síðustu viku í þriggja leikja bann fyrir rauða spjaldið sitt í Svartfjallalandi sem þýðir að Rooney missir af allri riðlakeppninni á Evrópumótinu næsta sumar.

Miodrag Dzudovic spilar fyrir Spartak Nalchik í Rússlandi og blaðamaður Daily Mirror hafði upp á honum og spurði hann út í Rooney og rauða spjaldið.

„Ég mun tala fyrir hönd Rooney ef hann áfrýjar banninu sínu. Refsingin var ekki sanngjörn að mínu mati. Hann hugsaði ekki þegar hann gerði þetta og um leið og hann áttaði sig á því sem hann hafði gert þá bað hann mig strax afsökunar. Ég var smá bólginn eftir leikinn en fékk ekki mar," sagði Miodrag Dzudovic.

Miodrag Dzudovic er 32 ára miðvörður sem á að baki þrettán landsleiki fyrir Svartfjallaland. Hann hefur spilað í rússnesku deildinni frá 2006.

Enska knattspyrnusambandið er ekki búið að taka ákvörðun um það hvort að leikbanni Wayne Rooney verði áfrýjað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×