Enski boltinn

Hlutur Straums í West Ham sagður til sölu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Sullivan ræðir við Avram Grant, stjóra West Ham.
David Sullivan ræðir við Avram Grant, stjóra West Ham. Nordic Photos / Getty Images
Vefmiðillinn Soccernet heldur því fram í dag að eftirstandandi hlutur Straums í enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham sé nú til sölu fyrir um 40 milljónir punda.

Straumur tók yfir eignarhlut Björgólfs Guðmundssonar í West Ham þegar hann varð gjaldþrota og stofnaði eignarhaldsfélagið CB Holding til að annast rekstur félagsins.

Síðan þá hafa þeir David Gold og David Sullivan keypt stóra hluti í félaginu og eiga í dag hvor um 31 prósenta hlut. Straumur á 35 prósent og aðrir hluthafar um þrjú prósent.

Heimildamaður Soccernet telur að verðmæti félagsins hafi aukist síðan að greint var frá því að West Ham fái afnot af Ólympíuleikvanginum í Lundúnum frá og með árinu 2014 og að hlutur Straums sé því metinn á 35-40 milljónir punda.

Þeir Gold og Sullivan eru sagðir eiga forkaupsrétt á hluti Straums næstu tvö árin en að félagið væri reiðubúið að skoða það að selja hlut Straums fjársterkum aðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×