Enski boltinn

19. meistaratitillinn á leiðinni á Old Trafford - United vann Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester United á Englandsmeistaratitilinn vísan eftir 2-1 sigur á Chelsea í hálfgerðum úrslitaleik milli tveggja efstu liða ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í dag. United skoraði strax á fyrstu mínútu leiksins og yfirspilaði Chelsea-menn stóran hluta fyrri hálfleiksins en Chelsea setti smá spennu í leikinn með því að minnka muninn í seinni hálfleik.

Manchester United er nú með sex stiga forskot á Chelsea þegar sex stig eru eftir í pottinum en United-menn eiga eftir leiki á móti Blackburn Rovers á útivelli og Blackpool á heimavelli.

Það tók Javier Hernandez aðeins 37 sekúndur að koma Manchester United í 1-0 þegar hann slapp í gegn eftir sendingu frá Park Ji-Sung í gegnum sofandi vörn Chelsea.

Hernandez var nálægt því að bæta við öðru marki á 11. mínútu og aftur kom sendingin frá Park Ji-Sung en að þessu sinni rétt missti Chicharito af boltan á fjærstönginni.

Wayne Rooney lét líka til sína taka á upphafsmínútum, hann átti þrumuskot af 30 metra færi sem Peter Cech varði frá honum á 9. mínútu og á 15. mínútu átti Rooney gott skot rétt framhjá.

Chelsea fékk fyrsta alvöru færi sitt á 19. mínútu þegar Florent Malouda skapaði usla á kantinum og Salomon Kalou átti skot sem Edwin van der Sar varði vel.

Annað mark United hafði legið í loftinu frá fyrstu mínútu og það var síðan Nemanja Vidic sem kom United í 2-0 á 24. mínútu með skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Ryan Giggs.

Edwin van der Sar þurfti að taka á stóra sínum skömmu eftir markið þegar hann varði skalla frá Salomon Kalou af stuttu færi og hollenski markvrðurinn varði síðan fasta aukaspyrnu frá Didier Drogba á 31. mínútu.

Carlo Ancelotti gerði tvær breytingar á Chelsea-liðinu í hálfleik og setti svo Fernando Torres inn fyrir Kalou á 61. mínútu. Við það lifnaði aðeins yfir sóknarleik Chelsea.

Frank Lampard minnkaði síðan muninn á 68. mínútu þegar hann potaði boltanum inn eftir að Branislav Ivanovic skallaði fyrirgjöf Ramires til hans.

Skömmu seinna var Rooney næstum því búinn að svara fyrir United en Alex varði þá skot hans með því að kasta sér fyrir skot Rooney á marklínunni.

Manchester United fékk nokkur ágæt færi í skyndisóknum á lokakaflanum en besta færi Chelsea fékk Fernando Torres á 87. mínútu en skot hans úr teignum fór framhjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×