Enski boltinn

Redknapp: Ekkert sem bendir til að Modric fari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luka Modric í leik með Tottenham.
Luka Modric í leik með Tottenham. Nordic Photos / Getty Images
Þrátt fyrir þrálátar sögusagnir þess efnis að Luka Modric sé á leið til Chelsea segir stjóri hans hjá Tottenham, Harry Redknapp, að það sé ekkert sem bendir til þess að kappinn sé á förum.

Tottenham hefur þegar hafnað tveimur tilboðum Chelsea í Modric en síðarnefnda félagið er sagt reiðubúið að bjóða 30 milljónir punda í króatíska miðvallarleikmanninn. Forráðamenn Chelsea eru sagðir reiðubúnir að láta þá Yossi Benayoun og Salomon Kalou ganga upp í kaupverðið.

Modric verður ekki með Tottenham þegar að liðið mætir Hearts í forkeppni Evrópudeildar UEFA á morgun vegna meiðsla. En Redknapp segir þó að staða Modric hafi ekkert breyst.

„Daniel (Levy, stjórnarformaður Tottenham) hefur sagt allan tímann að Luka sé ekki til sölu. Meira veit ég ekki um málið. Það er ekkert sem bendir til þess að Modric sé á förum.“

Redknapp vill styrkja leikmannahóp Tottenham með 1-2 miðvallarleikmönnum. „Við erum með nokkur járn í eldinum. Það eru mikil meiðsli hjá miðjumönnunum okkar og við erum með nokkur nöfn á blaði sem við erum að skoða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×