Joey Barton segist hafa verið í viðræðum við Arsenal í sumar og að hann hafi verið mjög nálægt því að semja við félagið eða þar til að allt sauð upp úr þegar hann og félagar hans í Newcastle mættu Arsenal í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Barton sem er 29 ára gamall fór á endanum frá Newcastle til nýliða Queens Park Rangers og hefur hann nú tekið við fyrirliðabandinu hjá QPR.
„Ef ég hefði ekki mætt Arsenal á opnunardeginum þá hefði ég kannski samið við þá. Ég átti nokkra fundi með Arsene Wenger en það er samt ekki það sama og að samningur væri kominn á borðið," sagði Joey Barton.
Barton lenti upp á kant við Gervinho í leiknum eftir að sá síðarnefndi reyndi að fiska víti. Barton reif Gervinho upp á treyjunni en Gervinho fékk síðan rauða spjaldið fyrir að svara því með því slá til Barton sem féll með tilþrifum í grasið.
„Gervinho-atvikið gerðist og það er ekkert sem ég get gert í því núna. Ef að þetta gerðist aftur þá trúi ég því að ég myndi bregðast öðruvísi við. Svona hlutirnir gerast og það eina í stöðunni er að læra af þessu. Núna erum við fyrir ofan Arsenal í töflunni og vonandi verður svo einnig í maí," sagði Barton.
Barton: Gervinho-atvikið kom í veg fyrir að ég færi til Arsenal
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
