Enski boltinn

Ranieri væri til í að þjálfa Balotelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Inter Milan, hefði mikinn áhuga á því að fá að þjálfa Mario Balotelli einn daginn.

Balotelli er nú á mála hjá Manchester City en hann var áður hjá Inter. Þáverandi stjóri liðsins, Jose Mourinho, gafst upp á kappanum og seldi hann til City þar sem hann hefur ítrekað komist í fréttir fyrir hin ýmsu uppátæki.

Það er hins vegar ljóst að hæfileikar kappans á vellinum eru ótvíræðir en hann hefur farið á kostum margsinnis með City á leiktíðinni. Hann skoraði svo sitt fyrsta landsliðsmark um helgina er Ítalía vann 2-0 sigur á Póllandi.

„Ég myndi taka Balotelli opnum örmum,“ sagði Ranieri í samtali við ítalska fjölmiðla. „Hann býr yfir miklum hæfileikum. Ég hef reyndar ekki rætt við leikmenn um hvort að þeir hafi eitthvað á móti honum en hann hefur allt til að bera til að verða einn besti knattspyrnumaður heims.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×